Ferill 272. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 272 . mál.


808. Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.


    Í meðförum nefndarinnar voru gerðar breytingar á frumvarpinu og bætt við tveimur efnisatriðum. Annars vegar er lagt til að breyta lánstíma 20% láns við kaup á almennri kaupleiguíbúð úr fimm árum í 25 og hins vegar er lagt til að sett verði ákvæði til bráðabirgða sem heimili frestun á greiðslum á lánum úr Byggingarsjóði ríkisins og fasteignaveðbréfum húsbréfadeildar þegar svo stendur á sem tilgreint er í breytingartillögunni. Báðar þessar breytingar eru til bóta og tekist hefur samstaða um þær í nefndinni. Þó þykir rétt að fara nokkrum orðum um þessi tvö efnisatriði.
    Alllangt er síðan í ljós kom að gildandi lagaákvæði um almennar kaupleiguíbúðir torveldaði mjög sölu á þeim. Þar var sér í lagi þrándur í götu að lánuð eru 90% kaupverðsins í tveimur lánum í stað eins í félagslega kaupleigukerfinu og er annað lánið 70% kaupverðsins til 43 ára en hitt nemur 20% kaupverðs og er einungis til fimm ára. Þetta fyrirkomulag leiðir af sér afar háa greiðslubyrði þann tíma sem verið er að greiða niður 20% lánið og hefur reynst fjölmörgum ofviða.
    Fyrir rúmu ári, eða nánar tiltekið 18. febrúar 1993, samþykkti húsnæðismálastjórn að leita eftir því við félagsmálaráðherra og félagsmálanefnd að þessu yrði breytt þannig að lánið yrði eitt lán til 43 ára sem svarar til 90% af kaupverði. Tillagan hlaut ekki undirtektir þá og var reyndar felld á síðasta þingi við afgreiðslu á stjórnarfrumvarpi um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þá gerði stjórnskipuð nefnd sömu tillögu í maí sl. en henni var falið að meta reynsluna af framkvæmd laga nr. 70/1990, um félagslegar íbúðir, og koma með tillögur til úrbóta. Vísast til skýrslu nefndarinnar til frekari upplýsinga. Það er fagnaðarefni að samstaða hafi nú loks náðst um að breyta þessu ákvæði laganna þótt breytingartillaga nefndarinnar gangi skemur en áðurnefndar tillögur og því greiðslubyrði af lánum hærri en þær tillögur gera ráð fyrir.
    Samkvæmt upplýsingum, sem minni hlutinn hefur aflað sér, munu almennar kaupleiguíbúðir vera um 380, þar af eru um 200 í leigu. Mun auðveldara verður fyrir leigjanda að festa kaup á íbúð eftir umrædda breytingu á lögunum en nú er. Þá hafa um 180 íbúðir verið seldar og þar af eru um 120 með fimm ára láni. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í breytingartillögunni gefst eigendum þeirra íbúða kostur á að breyta fimm ára láninu í 25 ára lán.
    Hvað hitt efnisatriðið varðar, frestunarákvæðið á greiðslum hjá einstökum lánþegum á lánum í Byggingarsjóð ríkisins og fasteignaveðbréfum húsbréfadeildar, er nauðsynlegt að undirstrika að af hálfu félagsmálaráðherra, sem óskaði eftir þessari breytingu, er ákvæðið túlkað þannig að það takmarkist við þá sem sótt hafa um skuldbreytingarlán samkvæmt reglugerð nr. 414/1993 og verið synjað. Hér er um afar afmarkaðan hóp að ræða. Samkvæmt upplýsingum Húsnæðisstofnunar ríkisins frá 27. janúar sl. gæti ákvæðið átt við 27 umsækjendur af 280 sem þá höfðu sótt um. Frestun afborgana og vaxta af lánum þeirra var áætluð vera um 8,3 millj. kr. á ári.
    Í minnisblaði félagsmálaráðuneytisins, sjá fskj. IV, dags. 21. mars 1994, er ekki lagt mat á það hve margir mundu falla undir ákvæðið um frestun greiðslu né hve hárri upphæð á ári yrði varið til slíkrar frestunar, einungis sagt að ef 100 einstaklingar ættu kost á frestun á greiðslu yrði innheimta stofnunarinnar um 23 millj. kr. minni en ella. Samkvæmt þessu gerir félagsmálaráðuneytið ráð fyrir að meðalupphæð sem frestast mundi hjá lántakanda yrði um fjórðungi lægri en Húsnæðisstofnun áætlar.
    Þrátt fyrir þennan mun á áætlunum er ljóst að í báðum tilvikum er verið að tala um lágar upphæðir og úrlausn fyrir fáa. Nauðsynlegt er að enginn misskilningur sé á ferðinni um þetta atriði. Því er á engan hátt ætlað að leysa úr vandræðum þeirra fjölmörgu sem eru í vanskilum með lán sín til húsnæðiskaupa. Um síðustu áramót voru um 15.700 greiðendur í vanskilum við Húsnæðisstofnun ríkisins og námu vanskil samtals um 2.488 millj. kr. Þar af voru um 5.000 greiðendur með um 1.289 millj. kr. vanskil frá 1. ágúst 1993 og eldri.
    Í nóvember sl. voru í Byggingarsjóði verkamanna einum um 500 greiðendur með meira en 200 þús. kr. í vanskilum hver og nam vanskilaupphæðin samtals um 320 millj. kr. Er þá gjalddaginn 1. nóvember ekki talinn með. Til samanburðar má nefna að innheimtar afborganir og vextir á þessu ári verða 780 millj. kr. Þá námu vanskil við húsbréfadeild 1.052 millj. kr. um síðustu áramót og greinilegt er að innheimta fer versnandi. Því til stuðnings má nefna innheimtu á gjalddaga 15. desember ár hvert. Í lok janúar 1991 höfðu innheimst 81,3% af gjalddaga 15. desember 1990. Ári síðar, í lok janúar 1992, höfðu innheimst 70% af gjalddaganum 15. desember 1991. Í janúar 1993 var innheimtuhlutfallið 64,6% og í janúarlok 1994 var það komið niður í 61,2%. Svipuð þróun hefur orðið á innheimtu annarra gjalddaga. Í lok október 1990 höfðu innheimst 85,8% af gjalddaganum 15. september 1990, ári síðar var hlutfallið 73,3%, síðan 67,1% og 62,7% í októberlok 1993.
    Húsnæðismálastjórn hefur áður bent á hættuna sem byggingarsjóðunum stafar af áhrifum atvinnuleysis á greiðslugetu fólks. Í umsögn, dags. 11. mars 1993, um frumvarp til laga um greiðslufrest á fasteignaveðlánum vegna fjárhagserfiðleika, sem undirritaður flutti á síðasta þingi ásamt Svavari Gestssyni, segir eftirfarandi:
    „Húsnæðismálastjórn vill vekja athygli félagsmálanefndar Alþingis á þeirri hættu sem steðjar að byggingarsjóðunum ef áfram heldur sem horfir með auknu atvinnuleysi. Ef lausn fæst ekki í þeim málum má gera ráð fyrir að vanskil muni aukast hjá byggingarsjóðunum. Afleiðingin gæti orðið alvarleg fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins. Verðhrun gæti orðið á fasteignamarkaði sem gæti haft í för með sér útlánatöp fyrir stofnunina, sem og fyrir aðrar lánastofnanir. Það gæti leitt til aukinna greiðsluerfiðleika íbúðareigenda. Húsnæðisstofnun ríkisins hefur enga möguleika að mæta þeim vanda þar sem byggingarsjóðirnir hafa ekkert fjármagn til að veita íbúðareigendum greiðsluerfiðleikalán sem gæti verið leið til að sporna við þessari þróun. Húsnæðismálastjórn telur afar brýnt að gripið verði til aðgerða til að koma í veg fyrir að sú staða, sem hér hefur verið lýst, komi upp og er fús til samstarfs í því máli.“
    Frá því þessi umsögn var gefin hefur atvinnuleysi haldið áfram að aukast og er orðið afar brýnt að gripið verði til aðgerða sem veiti skuldurum viðunandi úrlausn og treysti stöðu byggingarsjóðanna.
    Að lokum vill minni hlutinn vekja athygli á áliti lögfræðideildar Húsnæðisstofnunar ríkisins, sjá fskj. VI, dags. 2. nóvember 1993, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að stofnuninni sé heimilt að skuldbreyta lánum Byggingarsjóðs ríkisins og húsbréfadeildar ef um það verða settar öruggar reglur af húsnæðismálastjórn sem þyrftu að öðlast samþykki ráðherra.
    Minni hlutinn stendur að breytingartillögu félagsmálanefndar með þeim skilningi að hún veiti heimildir til frestunar á greiðslum lána umfram það sem felst í heimild stofnunarinnar til skuldbreytinga, sbr. álit lögfræðideildar stofnunarinnar.

Alþingi, 22. mars 1994.


Kristinn H. Gunnarsson.



Fylgiskjal I.


Bréf húsnæðismálastjórnar til félagsmálaráðuneytis.

(4. mars 1993.)


    Á fundi húsnæðismálastjórnar 18. febrúar sl. var samþykkt umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er nú liggur fyrir Alþingi. Þar er m.a. að finna ábendingu um breytingu á lögum um lán til byggingar á almennum kaupleiguíbúðum. Hún er á þessa leið:
    „Mikil ásókn er frá þeim aðilum sem fengið hafa úthlutað almennum kaupleiguíbúðum að fá þær fluttar milli kerfa og þeim breytt í félagslegar kaupleiguíbúðir. Þau rök eru færð fram fyrir þessum óskum að erfitt eða ómögulegt sé að koma almennum kaupleiguíbúðum í notkun þar sem enginn áhugi sé á slíkum íbúðum. Þessu valdi þung greiðslubyrði af lánum þessara íbúða. Það stafar af tvennu. Annars vegar eru vextir á lánum til almennra kaupleiguíbúða mun hærri en vextir á lánum til félagslegra íbúða og hins vegar er hluti lánsins (20%) með mun skemmri lánstíma en tíðkast um aðrar félagslegar íbúðir. Hinu fyrra er erfitt að breyta, en húsnæðismálastjórn leggur til að breytt verði ákvæðum 52. og 54. gr. laganna þannig að lánað verði eitt lán sem svarar til 90% af byggingarkostnaði eða kaupverði til 43 ára.“
    Þetta tilkynnist yður hér með.

Virðingarfyllst,

f.h. húsnæðismálastjórnar,


S. E. G.




Fylgiskjal II.


Húsnæðisstofnun ríkisins:

Viðmiðunarreglur fyrir leigu á félagslegum íbúðum.

(28. júní 1993.)


(Repró, 1 síða.)





Fylgiskjal III.


Bréf fjármálaráðuneytis til félagsmálanefndar.

(21. mars 1994.)


    Fjármálaráðuneytinu hefur borist ósk um álit á fyrirliggjandi tillögu um frestun greiðslna lánþega Byggingarsjóðs ríkisins og húsbréfadeildar.
    Í bréfi félagsmálaráðuneytis til félagsmálanefndar Alþingis, dags. 11. febrúar sl., er farið fram á að eftirfarandi ákvæði verði tekið inn í lög um Húsnæðisstofnun ríkisins:
    „Húsnæðisstofnun ríkisins getur heimilað frestun á greiðslum hjá einstökum lánþegum Byggingarsjóðs ríkisins og skuldurum fasteignaveðbréfa húsbréfadeildar ef viðkomandi hefur orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu vegna atvinnuleysis, minnkandi atvinnu eða veikinda. Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. janúar 1996.“
    Mjög takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir hjá Húsnæðisstofnun ríkisins um hve margir lánþegar gætu átt rétt á frestun greiðslna samkvæmt þessu ákvæði né fjárhagsáhrif þess, enda ræðst það að mjög miklu leyti af ákvæðum reglugerðar um framkvæmd þessarar heimildar.
    Fjármálaráðuneytið leggur áherslu á að heildarlántökur Byggingarsjóðs ríkisins og húsbréfadeildar aukist ekki með tilkomu þessarar heimildar enda þyrfti sérstaka heimild í lánsfjárlögum til þess. Í þessu sambandi skal tekið fram að Byggingarsjóður ríkisins hefur svigrúm til að mæta þessari fjárþörf með því að takmarka lánveitingar og styrkveitingar á grundvelli 11. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins.

F.h.r.


Halldór Árnason.

Jón R. Blöndal.




Fylgiskjal IV.


Ingi Valur Jóhannsson,
félagsmálaráðuneyti:


Minnisblað um lengingu lánstíma vegna

kaupa á almennum kaupleiguíbúðum.

(21. mars 1994.)


    Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur hefur að ósk félagsmálaráðuneytis gert áætlun um áhrif lengingar lánstíma vegna almennra kaupleiguíbúða á sjóðstreymi Byggingarsjóðs verkamanna.
    Forsendur eru eftirfarandi: Miðað við að vextir séu 4,9%, meðallán 5,4 millj. kr. (20% lán = 1,2 millj. kr. og 70% lán = 4,2 millj. kr.) og veitt verði 100 lán á ári (100 íbúðir).
    Áhrif breytingar á lánstíma úr fimm árum í 25 ár eru eftirfarandi: Á fyrsta ári eftir breytinguna dregur úr innstreymi um 19 millj. kr. en áhrifin ná hámarki eftir sex ár en þá verður innstreymið um 96 millj. kr. lægra en ella en fer síðan lækkandi og eftir 25 ár verður innstreymið jákvætt um 70 millj. kr.
    Breytingin hefur engin áhrif á rekstrarafkomu sjóðsins enda vextir óbreyttir. Hins vegar þarf að afla viðbótarlánsfjár sem þessum fjárhæðum nemur þegar þar að kemur.


Minnisblað um áhrif frestunar greiðslna á

sjóðstreymi byggingarsjóðanna.

(21. mars 1994.)


    Erfitt er að áætla umfang greiðslufrestsins bæði hvað varðar fjölda og fjárhæð. Starfsmenn Húsnæðisstofnunar, sem best þekkja til í þessum efnum, hafa áætlað á grundvelli reynslu af skuldbreytingum að ef 100 einstaklingar ættu kost á frestun greiðslna yrði innheimta stofnunarinnar um 23 millj. kr. lægri en ella. Á sama hátt má gera ráð fyrir að ef 400–500 aðilar fengju frest yrði innheimtan lakari um sem nemur nálægt 100 millj. kr. sem er um 1% af lántöku stofnunarinnar á árinu samkvæmt fjárlögum.
    Hafa verður í huga í þessu sambandi að ólíklegt er að greiðslur þessara aðila hefðu að óbreyttu skilað sér á réttum tíma. Því er erfitt að meta bein áhrif af greiðslufrestun á sjóðstreymi stofnunarinnar. Ljóst er að miðað við núverandi ástand mun draga úr innstreymi til stofnunarinnar óháð því hvort heimilað verður að fresta greiðslum eða ekki. Frestun hefur ekki áhrif á rekstrarafkomu enda vextir óbreyttir.








Fylgiskjal V.


Byggingarsjóður verkamanna:

(Repró, 1 síða.)





Fylgiskjal VI.


Húsnæðisstofnun ríkisins,
lögfræðideild:


Minnisblað um heimildir Húsnæðisstofnunar til að

skuldbreyta lánum að óbreyttum lögum.

(2. nóvember 1993.)


(Repró, 5 síður.)